Félagslegir þættir

Mannauður

Brim er eitt stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi. Reynsla og þekking á nýtingu auðlindar og framleiðslu sjávarafurða endurspeglast í öllu starfi Brims. Hlutverk starfsfólks tekur til allrar virðiskeðjunnar, þ.e. veiða, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Brim leggur áherslu á að innan fyrirtækisins starfi hæft og traust starfsfólk sem af fagmennsku og ábyrgð tryggir sjálfbæra nýtingu og hagkvæmni í umgengni við auðlindina.

Brim er traustur vinnustaður þar sem stjórnendum og starfsfólki er annt um vellíðan og heilbrigði samstarfsfólks síns. Brim er fjölskylduvænn vinnustaður þar sem leitast er við að starfsfólk geti gætt jafnvægis milli vinnu og einkalífs. Fjölbreytileiki starfa hjá Brim leiðir til þess að leita þarf ólíkra leiða til að ná þessu markmiði. Brim er jafnréttissinnaður vinnustaður þar sem leitast er við að fá jafnt karla og konur til starfa í hinum ólíku starfahópum vinnustaðarins. Óheimilt er að mismuna starfsfólki hjá Brim vegna kyns, kynhneigðar eða ólíks uppruna. Brim vinnur eftir aðgerðaáætlun í jafnréttismálum sem er endurskoðuð reglulega. Stefnur Brims sem snúa að félagslegum þáttum má nálgast undir umfjöllun um stefnur félagsins.

Upplýsingar um félagslega þætti ná til Brims og dótturfélagsins Ögurvíkur nema annað sé tekið fram. Ástæðan fyrir því er að Ögurvík með frystiskipinu Vigra og botnfiskheimildum er rekið, sem hluti af botnfisksvið Brims.

Árið

Sóttvarnarráðstafanir sem gripið var til vegna Covid-19 faraldursins höfðu mikil áhrif á starfsemi félagsins. Komið var á fót vinnuhópi innan félagsins, sem hafði yfirumsjón með sóttvörnum til lands og sjós. Gripið var til víðtækra sóttvarnarráðstafana með því meðal annars að hólfa niður vinnusvæði og aðstöðu starfsfólks. Það tókst mjög vel að verja starfsfólk og starfsemi félagsins, en félagsstarf á árinu lá algjörlega niðri.

Á árinu 2020 voru að meðaltali 769 stöðugildi hjá Brimi og dótturfélögum miðað við heilsársstörf, en þau voru 798 á árinu 2019 og hefur þeim því fækkað um 29 milli ára. Norðanfiskur á Akranesi var seldur á árinu þar störfuðu 34 en á móti kemur að Kambur í Hafnarfirði og línubáturinn Kristján koma inn í reksturinn, en þar starfa 45 manns. Störfum í vinnslu Brims við Norðurgarð fækkaði um 27 vegna endurnýjunar á vinnslunni.


Meðalfjöldi starfsmanna 2020 2019
Sjómenn 277 275
Reykjavík 238 279
Vopnafjörður 110 108
Akranes 15 17
Brim og Ögurvík samtals 640 679
Dótturfélög 129 119
Alls Brim og dótturfélög 769 798

Stöðugildi

Áhugavert að vita!
Brim og Akraneskaupstaður hafa tekið höndum saman og stofnað sameiginlegt þróunarfélag sem fékk nafnið Breið. Markmiðið með stofnun þróunarfélagsins er atvinnuuppbygging og nýsköpun á svokallaðri Breið á Akranesi. Félaginu er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu í bland við íbúðabyggð. Áhersla verður á ferðaþjónustu, heilsu og hátækni.

MANNRÉTTINDI OG KJARASAMNINGAR

Langflest starfsfólk félagsins eru í stéttarfélagi eða 97%, og þiggja laun samkvæmt ákvæðum gildandi kjarasamninga. Starfsfólk í fiskvinnslu fær greitt álag þegar unnið er með hráefni á vinnslulínum en sá kaupauki styðst við ákvæði kjarasamninga. Ekkert kaupaukakerfi er í gangi á öðrum stöðum innan félagsins. Sjómenn þiggja laun samkvæmt hlutaskiptakerfi sem byggist á kjarasamningum. Launakerfi sjómanna byggir í grunninn á aflaverðmæti viðkomandi skips og skiptist verðmætið á milli útgerðar og áhafnar eftir hlutaskiptakerfi.

Félagið hefur sett sér siðareglur um mannréttindi, spillingu eða mútur. Brim leggur áherslu á að fara alltaf að lögum og almennum viðmiðum um siðferði í viðskiptum og fylgir þeim reglum sem félagið setur sér á hverjum tíma. Brim virðir mannréttindi og hugar sérstaklega að þeim er lúta að félagafrelsi, nauðungar- og þrælkunarvinnu og misrétti á vinnustöðum.

Áhersla er lögð á að verktakar og undirverktakar þeirra fari ævinlega að lögum í landinu er varða alla þá sem starfa fyrir þá, sama hvort um er að ræða launþega þeirra eða undirverktaka.

Einelti eða kynferðisleg áreitni eru ekki liðin hjá félaginu. Aðgerðaáætlun um viðbrögð ef upp kemur grunur um einelti eða áreitni á vinnustað er endurskoðuð reglulega. Áhersla er lögð á að starfsfólk sýni hvert öðru virðingu og er óréttlæti ekki liðið, s.s. einelti, kynferðislega áreitni eða mismunun vegna ómálefnalegra þátta á borð við kynferði, trú, kynþátt eða kynhneigð. Ef við verðum vör við einelti eða óréttlæti, upplýsum við yfirmenn okkar um það samstundis.

Jafnlaunavottun

Meginmarkmið jafnlaunavottunar er að vinna gegn kynbundnum launamun og stuðla að jafnrétti kynjanna á vinnumarkaði.

Jafnlaunakerfi félagsins er tekið út árlega af fulltrúa BSI á Íslandi sem er faggiltur vottunaraðili með réttindi til að taka út skilyrði ÍST 85:2012 jafnlaunastaðals. Sá áfangi að fá jafnlaunamerkið er afrakstur af mikilli og góðri samvinnu margs starfsfólks Brims.

Brim er þriðja íslenska sjávarútvegsfyrirtækið sem hlýtur jafnlaunamerkið. Félagið vinnur að því að skapa eftirsóknarverðan vinnustað og í því felst meðal annars að kynbundinn launamunur sé innan við 5%. Þegar litið er til heildarlauna og tekið tillit til helstu þátta, sem hafa áhrif á laun, eru konur með um 4,9% lægri laun en karlar samkvæmt úttekt sem gerð var í mars 2020 Það hallar því enn á konur. Unnið er að því að enginn launamunur verði á milli kynjanna.

Kynjahlutfall starfsfólks í prósentum

Fræðsla

Brim kappkostar að fræða, endurmennta og þjálfa starfsfólk sitt. Mikilvægt er að nýtt starfsfólk hljóti viðeigandi fræðslu og þjálfun. Markmiðið er að félagið laði til sín starfsfólk með framúrskarandi færni á sínu sviði. Skipulögð þjálfun og fræðsla fer fram allt árið. Auk þjálfunar í því sem snýr beint að störfum viðkomandi starfsmanns eru reglulega námskeið og kynningar um hin ýmsu mál til fróðleiks og til að efla persónulega færni.

Fræðslustarfið fer ýmist fram innanhús eða annars staðar. Aukin tæknivæðing hefur auðveldað samskipti við starfsfólk sem dreifist víða um land og sjó.

Fjöldi fræðslustunda

Sóttvarnarráðstafanir gerðu erfitt um vik með fræðslu-og námskeiðshald á árinu, en engu að síður tókst nokkuð vel til með því að nýta m.a. annars fjarkennslu. Fjöldi fræðslustunda árið 2020 voru 800 á móti 1022 árið 2019. Fjöldi starfsmanna sem sóttu námskeið fjölgaði aftur á móti úr 186 í 436.

Fjöldi Stundir
Námskeið 2020 2019 2020 2019
Slysavarnarskóli sjómanna 45 45 680 616
Öryggismál 9 2 36
Fiskvinnslunámskeið 16 5 40 10
Nýliðanámsskeið 60 120
Íslenska 6 24
Gæðamál 113 51 25 179
Tækni 92 10 34 31
Ýmislegt - persónuleg færni ofl. 170 19
Samtals 436 186 800 1022

FORVARNIR

Öryggis- og vinnuverndarmál eru mikilvægur þáttur í fræðsluáætlun Brims. Í nýliðafræðslu fer starfsfólk félagsins vandlega yfir atriði er varða öryggi og vinnuvernd félagsins.

Forvarnir og fræðsla um borð í skipum fer að stórum hluta fram í gegnum nýliðafræðslu sem skipstjórnendur sinna og einnig á reglulegum björgunaræfingum þar sem öll áhöfn skips tekur þátt í æfingunni. Lögð er áhersla á að skipstjórnendur haldi reglulegar björgunaræfingar, minnst tólf sinnum á ári.

Slysavarnaskóli sjómanna

Árlega sækja sjómenn námskeið hjá Slysavarnaskóla sjómanna.

Helstu námskeiðin eru:

 • Öryggisfræðsla,
 • Endurmenntun STCW 10
 • Framhaldsnámskeið eldvarna
 • Líf- og léttbátar aðrir en hraðskreiðir léttbátar
 • Sjúkrahjálp í skipum
 • Hóp- og neyðarstjórnun


Námskeiðin efla þekkingu á þeim björgunar- og öryggisbúnaði sem er um borð í skipum. Einnig er farið yfir hvernig bregðast á við slysum og óhöppum, fyrirbyggja þau og tryggja eigið öryggi. Mikilvægt er að menn geti brugðist rétt við á neyðarstundu.

Engin banaslys hafa orðið á íslenskum sjómönnum við strendur landsins síðustu fjögur ár og slysum á sjó fækkaði einnig á árinu.

Þennan góða árangur má þakka tækniframförum, þ.e. betri skipum og búnaði en ekki síst starfi Slysavarnaskóla sjómanna sem stofnaður var árið 1985. Í skólanum fer fram fræðsla um öryggismál og slysavarnir. Nám við skólann er forsenda lögskráningar á skip. Slysavarnaskóli sjómanna er nú undirdeild í Slysavarnafélaginu Landsbjörg.

Öryggismál

Brim lætur sig slysavarnir varða, sem kemur fram í innra starfi félagsins, þ.e. fræðslu og forvörnum og einnig stuðningi þess við öflugt slysavarna- og björgunarstarfi til sjós og lands. Skipulag öryggismála miðar að því að auka vægi málaflokksins innan félagsins og efla skilvirkni öryggismála. Stjórnendur bera ábyrgð á öryggismálum.

Hver og einn starfsmaður ber ábyrgð á eigin öryggi. Ein af grunnforsendum þess að takist að fækka slysum er að allir axli ábyrgð og stjórnendur jafnt sem starfsfólk einsetji sér að vinna að bættu öryggi. Stjórnendur bera ábyrgð á því að búnaður sé góður og öruggt skipulag sé ríkjandi á þeim vinnusvæðum og starfsstöðvum sem þeir hafa umsjón með. Félagið treystir því að stjórnendur sýni jafnan gott fordæmi og leiði vinnuverndarstarf félagsins. Brim hefur sett sér stefnu í vinnuumhverfis og öryggismálum sem nálgast má undir stefnum Brims.

Öryggisnefndir og öryggisfulltrúar

Öryggisnefndir eru starfandi á öllum sviðum fyrirtækisins og hafa þær skýrt afmarkað hlutverk. Öryggisnefndir eru á öllum starfsstöðvm Brims. Mannauðssvið félagins annast umsjón og eftirlit með málaflokknum. Þetta er í samræmi við reglugerð um skipulag og framkvæmd vinnuverndarstarfs á vinnustöðum nr. 920/2006. Öryggismál eru hluti starfsmannastefnu félagins. Brýnt er að starfsfólk fylgi öryggisreglum á vinnustað, taki þátt í öryggisfræðslu og bendi á það sem betur mætti fara í öryggismálum.

Alls eru 11 öryggisnefndir starfræktar hjá félaginu. Öryggisfulltrúar eru annars vegar þeir öryggisverðir sem tilnefndir eru af stjórnanda viðkomandi starfstöðvar og hins vegar öryggistrúnaðarmenn sem kosnir eru af starfsfólki fyrirtækisins. Hlutverk öryggisfulltrúa er að sjá til þess að öryggis- og vinnuverndarmál séu í samræmi við lög* og stefnu félagsins.

*Lög um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi á vinnustöðum nr. 46/1980. Reglugerð um ráðstafanir er stuðla að bættu öryggi og heilsu starfsmanna um borð í skipum nr. 200/2007

Slys

Brim leggur áherslu á að öll slys séu skráð og eru verkferlar og vinnuupplýsingar kynnt fyrir starfsfólki. Öll slys ber að skrá með rafrænum hætti á innri vef Brim. Fjarveru- og umönnunarslys starfsfólks í landi eru tilkynnt til Vinnueftirlits ríkisins, Sjúkratrygginga Íslands og tryggingafélags. Fjarveruslys starfsfólks á sjó eru tilkynnt til Sjúkratrygginga Íslands, Rannsóknarnefndar sjóslysa og tryggingafélaga.

Slys eru flokkuð í eftirfarandi flokka:

 • Fjarveruslys: Slys sem valda fjarvistum frá vinnu (vinnuslys), þ.e. sem nemur slysdegi + næsta degi eða enn lengra tímabili.
 • Umönnunarslys: Slys þar sem hinn slasaði þarf að leita sér aðstoðar á heilsugæslu en mætir engu að síður til vinnu daginn eftir.
 • Skyndihjálparslys: Minniháttar slys eða slys sem krefjast þess að notaður sé skyndihjálpar­búnaður (smáskurðir o.þ.h.). Viðkomandi tekur sér ekki frí frá vinnu.
 • Frítímaslys: Slys sem verða í frítíma starfsfólks eða á leið til eða frá vinnu.

Samtals voru tilkynnt 50 slys á árinu sem eru 11 færri en árið áður en þá voru þau 61. Á árinu voru 23 slys á sjó og 27 í landi. Fækkun milli ára má meðal annars rekja til þess að vinnsla Brim við Norðurgarð var lokuð í rúma þrjá mánuði vegna breytinga og endurnýjunar.

SLYS EFTIR FLOKKUM

Slys eftir mánuðum


ORSÖK ÁVERKA EFTIR TEGUND SLYSS 2020

Þegar rýnt er í öll skráð slys árið 2020 sést að fjarveruslys urðu helst vegna högga, hvassra hluta og ofreynslu. Einnig eru alvarleg slys tengd því að starfsfólk klemmist eða fellur.

-

Áhugavert að vita!
Brim tók þátt í markaðsherferð með fjölda íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undir merkinu “FISHMAS“. Herferðinni var ætlað að auka vitund um íslenskan fisk og allt það sem hann stendur fyrir, frá heilnæmi og hollustu til hreinleika hafsins og sjálfbærni við veiðar. Athyglinni í fyrstu verður beint að Bretlandi sem hefur spilað stórt hlutverk í sögu sjávarútvegs á Íslandi.

Heilsa og heilbrigðir lífshættir

Brim hvetur starfsmenn til að stunda heilbrigða lífshætti og huga að umhverfinu. Félagið stuðlar meðal annars að því með eftirfarandi hætti.:


 • Öllum starfsmönnum stendur til boða árleg heilsufarsskoðun og ráðgjöf.
 • Læknir eða hjúkrunarfræðingur hefur viðveru tvisvar í mánuði í starfsstöð Brims við Norðurgarð, sem starfsfólk getur leitað til.
 • Bólusetningu við inflúensu stendur öllum starfsfólki til boða á vinnustað.
 • Starfsfólk sem nýtir sér vistvænan samgöngumáta býðst samgöngustyrkur eða árskort í strætó.
 • Íþróttastyrkur stendur til boða því starfsfólki sem stundar reglulega líkamsrækt.
 • Á starfsstöðvum félagssins er boðið upp á hollan og góðan mat á hóflegu verði.
 • Starfsfólk er hvatt til þátttöku í hverskonar hreyfingu og íþróttum, t.d. með því að taka þátt í landsátökum eins og Lífshlaupinu og Hjólað í vinnuna.
 • Reglulega eru haldin námskeið og kynningar um hreyfingu og holla lifnaðarhætti.


Starfsfólk Brims fékk í jólagjöf árið 2019, Garmin heilsuúr frá fyrirtækinu. Tilgangurinn var að virkja starfsfólkið að taka þátt í heilsuleik sem fólst í því að safna sem flestum skrefum. Starfsfólkið gat valið hvort það tók þátt í leiknum og voru rúmlega 100 manns sem skráðu sig til leiks en fleiri fylgdust með á Workplace. Vikulega var farið yfir stöðuna og verðlaun veitt þeirri deild og þeim einstaklingi, sem safnað hafði flestum skrefum í vikunni á undan. Verðlaunahátið fór fram í hádeginu þann 6. júní 2020, fyrir framan Þúfuna. Sverrir Bergmann og Halldór Gunnar spiluðu ljúfa tónlist fyrir starfsfólkið á meðan hádegisverður var snæddur utandyra. Áhöfnin á Víkingi sigraði bæði deildar- og einstaklingskeppnina en þeir söfnuðu alls 2.100.488 skrefum. Á myndinni sést hluti af áhöfninni með bikarana.

Samgöngustefna

Markmiðið með samgöngustefnu Brims er að hvetja starfsfólk félagsins til að nota vistvænan, hagkvæman og heilsusamlegan ferðamáta. Félagið vill einnig sýna gott fordæmi með því að auka vitund starfsfólks um vistvænar samgöngur og jafnframt leggja sitt af mörkum til að bæta umhverfið og heilsu starfsmanna sinna og annarra.

Samgöngusamningur stendur því starfsfólki til boða sem hefur unnið lengur en þrjá mánuði hjá Brimi eða er fastráðið og getur skuldbundið sig til að nota vistvænan ferðamáta til og frá vinnu, t.d. með því að ganga, hjóla, hlaupa eða nota almenningssamgöngur. Samningurinn gildir að hámarki í tólf mánuði frá undirritun hans og er uppsegjanlegur af hálfu beggja aðila með eins mánaðar fyrirvara.

Í lok árs 2020 voru 159 starfsmenn með samgöngusamning og fengu greidda samgöngustyrki eða voru með strætókort frá félaginu. Árið á undan 2019 voru þetta 204 starfsmenn. Færri samningar eru m.a. vegna lokunar Noðurgarðs og fækkun starfsmanna.

Samgöngusamningar

Félagsstarf

Það er stefna Brims að stuðla að og hafa frumkvæði að eflingu félagsslífs starfsfólks.

Árshátíð Brims er haldin daginn fyrir Sjómannadaginn, enda er það eina helgin þar sem allir sjómenn félagsins hafa tækifæri til að sækja hátíðarhöldin. Í ágúst ár hvert hefur Brim boðið starfsfólki og fjölskyldum þeirra til hátíðar í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum, sem hefur alltaf tekist mjög vel og mætingin jafnan verið með eindæmum góð. Á aðventunni hefur skapast sú hefð að Brim býður starfsfólki á Jólatónleika. Tónleikar með Siggu Beinteins, Björgvini Halldórssyni og Baggalút hafa orðið fyrir valinu undanfarin ár.

Starfsmannafélagið Brimgarður hefur staðið fyrir Jólamáltíð á aðventunni og annað hvert ár er farið í borgarferð. 2019 fór stór hópur starfsmanna á vegum starfsmannafélagsins til Mílanó.

Vegna covid-19 faraldursins var öllum samkomum starfsmanna aflýst 2020.

Brim tekur þátt í Hátíð hafsins sem fram fer sömu hátíðarhelgina ár hvert. Hafnardagurinn er haldinn á laugardeginum og Sjómannadagurinn á sunnudeginum. Bakhjarlar hátíðarinnar eru Brim, Faxaflóahafnir og Sjómannadagsráð. Hátíðin er ein sú allra stærsta sem haldin er í Reykjavíkurborg en rúmlega 40.000 manns lögðu leið sína niður að höfninni árið 2019.

Vegna covid-19 faraldursins var Hátíð hafsins aflýst eins og öðrum samkomum á landinu.

Starfsmannafélög

Brimgarður starfsmannafélag Brims er hugsað fyrir allt starfsfólk Brims til bæði sjós og lands. Tilgangur félagsins er að efla félagslíf og kynningu meðal félagsmanna með skemmtiferðum, skemmtunum og hvers kyns menningar- og fræðsluefni sem félagsmönnum má að gagni verða. Starfsmannafélagið hefur síðastliðin ár haft að markmiði að halda haust- og vorfagnað, jólahlaðborð og jólaball fyrir börn starfsfólks. Starfssemin hefur markaðst af samkomutakmörkunum vegna Covid-19 faraldursins og nánast allar samkomur félagsins felldar niður. Brimgarður á sumarbústað á Flúðum sem leigður er út allt árið um kring.

Starfsfólk Brims á Vopnafirði hefur val um að vera í Brimgarði eða í starfsmannfélagi Brims á Vopnafirði.

Áhugavert að vita!
Brim gerðist aðalstyrktaraðili umhverfissamtakanna Bláa hersins sem leggja áherslu á baráttuna gegn plastmengun í hafinu með hreinsunarstarfi sínu við strendur landsins. Umhverfið og lífríki sjávar er grundvöllur að starfsemi Brims þar sem lögð er áhersla á góða umgengni um auðlindina og ábyrgar fiskveiðar svo komandi kynslóðir geti notið hennar til framtíðar.

Uppgjör á félagslegum þáttum

Í meðfylgjandi töflu er uppgjör á félagslegum þáttum samkvæmt UFS leiðbeiningum Nasdaq. Uppgjörið er með þeim fyrirvara að Nasdaq leiðbeiningarnar eru almennar og í einhverjum tilfellum er ekki hægt að heimfæra þær á starfsemi Brims vegna þess að þær eiga ekki við. Sem dæmi ná nefna þar sem spurt er um „Tíðni slysatengdra atvika miðað við heidartíma vinnuafls í prósentum“ er slysatíðni gefin upp sem hlutfall af fjölda starfsfólks þar sem sjómenn eru ekki með hefðbundinn vinnutíma.

Einingar 2020 2019 2018 2017
F1. Launahlutfall forstjóra
Laun og bónusgreiðslur forstjóra (x) sem hlutfall af miðgildi launa starfsfólks í fullu starfi x:1 3,1 4,5 5,3 5,2
Eru upplýsingar um fyrrgreint hlutfall lagðar fram í skýrslugjöf til stjórnvalda ? já/nei nei nei nei nei
F2. Launamunur kynja
Miðgildi heildarlauna karla (x) sem hlutfall af miðgildi heildarlauna kvenna 2,6 1,9 2,0 2,1
Niðurstaða jafnlaunavottunar % 4,9% 2,3%
F3. Starfsmannavelta
Árleg breyting starfsfólks í fullu starfi % 9,5% 3,0% 8,0% 2,0%
Heilsársstörf (athuga) 769 798 773 859
F4. Kynjafjölbreytni
-Karlar % 71.0% 72.0% 70.0%
-Konur % 29.0% 28.0% 30.0%
F5. Hlutfall tímabundinna starfskrafta
Starfsfólk í hlutastarfi % - - - -
Vertakar og ráðgjafar % - - - -
F6. Aðgerðir gegn mismunun
Fylgir fyrirtæki þitt stefnu er varðar kynferðislegt áreiti og/eða jafnrétti? já/nei
F7. Vinnuslysatíðni
Heildarfjöldi slysa Fjöldi 50 60 90 59
Þar af á sjó - 23 23 25 26
Þar af í landi - 27 37 65 56
Tíðni slysatengdra atvika, sem hlutfall af heildarfjölda starfsfólks % 9.0% 8.0% 12.0% 7.0%
Fjarvera frá vinnu vegna veikinda - starfsfólk í landi % 4.9% 4.4% 5.1%
F8. Hnattræn heilsa og öryggi
Fylgir fyrirtæki þitt starfstengdri heilsustefnu og/eða hnattrænni stefnu um heilsu og öryggi? já/nei
F9. Barna-og nauðungarvinna
Fylgir fyrirtæki þitt stefnu gegn barna-og/eða nauðungarvinnu já/nei
Ef já, nær stefnan gegn barna-og/eða nauðungarvinnu einnig til birgja og seljenda? já/nei
F10. Mannréttindi
Fylgir fyrirtækið mannréttindastefnu? já/nei

UFS leiðbeiningum Nasdaq er ætlað að birta upplýsingar um framangreinda þætti í rekstri fyrirtækja á skýran og aðgengilegan hátt fyrir fjárfesta og aðra hagsmunaaðila.