Árið

Ávarp forstjóra

Samhliða góðum daglegum rekstri horfir Brim til framtíðar sem byggir á virðingu fyrir umhverfinu, góðri umgengni við auðlindir hafsins og fjárfestingum félagsins sem skapa ný tækifæri og bæta afkomu til frambúðar.
Guðmundur Kristjánsson
Forstjóri Brims

Brim sýndi styrk sinn á erfiðu ári. Reksturinn er traustur, starfsfólk öflugt og eigið fé félagsins sterkt en á alla þessa þætti reyndi á árinu 2020. Covid-19 hafði mikil áhrif á starfsemi félagsins en þrátt fyrir lokanir og samgönguhöft í öllum heimsálfum gátu viðskiptavinir félagsins treyst á örugga afhendingu gæðavöru frá félaginu. Starfsfólk félagsins sem var undir miklu álagi allt árið stóð sig mjög vel við erfiðar aðstæður.

Brim er samþætt sjávarútvegsfyrirtæki og við breyttar aðstæður vegna Covid kom í ljós styrkur þess að búa yfir sveigjanleikanum sem fylgir samþættri starfsemi, allt frá veiðum og vinnslu að sölu- og markaðsstarfsemi. Vinnsla Brims við Norðurgarð í Reykjavík var endurnýjuð en með uppsetningu á hátæknivinnslubúnaði mun félagið styrkja starfsemina til frambúðar. Endurnýjun á vinnslunni er einnig ástæðan fyrir því að afli var ívið minni á árinu 2020 en árið á undan og afli á úthaldsdag var sömuleiðis minni þar sem vinnslan var lokuð í rúma þrjá mánuði og veiðum því stýrt á annan hátt og aflastaða því góð inn í nýtt ár. Þó er hér um sveiflur að ræða sem teljast eðlilegar í sjávarútvegi.

Verð á erlendum mörkuðum voru lægri en áður vegna heimsfaraldursins en á móti kom að gengi krónunnar var veikt sem styrkir útflutningsfyrirtæki eins og Brim. Félagið jók sölu á afurðum í gegnum eigin sölufélög erlendis sem jók tekjur samstæðunnar. Niðurstöður eru að tekjur jukust úr 261 milljónum evra árið 2019 í 292 milljónir eða úr ríflega 40 milljörðum króna í yfir 45 milljarða en hagnaður minnkaði úr tæpum 34 milljónum evra í rúmar 29 milljónir eða úr 5,3 milljörðum króna í um 4,5 milljarða og svokölluð EBITDA framlegð dróst saman úr 24,2% í 19,6%. Að mínum dómi er fjárhagslegur rekstur félagsins á árinu ásættanlegur í ljósi aðstæðna.

Uppgjör ófjárhagslegra þátta sem Brim hefur haft forystu um í fjögur ár á meðal sjávarútvegsfyrirtækja sýnir að félagið er áfram í fremstu röð á sviði sjálfbærni, samfélagslegrar ábyrgðar, umhverfis - og mannauðsmála. Verkefnin á þessu sviði sem starfsfólk Brims vinnur, oft í samvinnu við birgja og viðskiptavini, skipta hundruðum í mánuði hverjum og þau skila sér í lægra vistspori af starfseminni, aukinni ánægju starfsfólks og auknum lífsgæðum í nærsamfélagi félagsins. Á árinu 2020 sýndi heimsfaraldurinn okkur hvað við erum öll öðrum háð og hversu auðvelt er að veikja okkur en um leið að sterkt samfélag eflir okkur öll. Til sjós hefur lengi verið vitað að við erum öll á sama báti.

Fjárfest í framtíð

Samhliða góðum daglegum rekstri horfir Brim til framtíðar sem byggir á virðingu fyrir umhverfinu, góðri umgengni við auðlindir hafsins og fjárfestingum félagsins sem skapa ný tækifæri og bæta afkomu til frambúðar. Fjárfestingastefna félagsins stuðlar að umbótum á jafnt fjárhagslegum sem ófjárhagslegum þáttum í starfseminni. Nýlegar fjárfestingar í aflaheimildum, hátæknibúnaði í Reykjavík, Hafnarfirði og Vopnafirði hafa styrkt rekstur, minnkað orkunotkun, dregið úr sóun og vistspori, aukið öryggi og starfsánægju, fjölgað tækifærum til nýsköpunar og treyst hlutverk Brims sem máttarstólpi og mikilvægur þáttur innviða þeirra samfélöga sem félagið tilheyrir. Áfram verður haldið á þessari braut. Skýr stefna Brims er að skipta hagnaði eftir skatta á ári hverju í tvennt. Annar helmingur rennur til greiðslu á leigugjaldi fyrir afnot af fjármunum sem eigendur eiga í félaginu og heitir leigugjaldið arður. Hinn helmingurinn er kyrrsettur hjá félaginu til þess að fjármagna framtíðar uppbyggingu félagsins. Á síðustu 30 árum hefur hlutfall kyrrsetts hagnaðar verið um 60% af hagnaði félagsins að meðaltali og þess vegna er Brim með mikið eigið fé.

Erfiðleikar hertu

Árið 2020 var vissulega á köflum erfitt en við hjá Brimi munum minnast þess fyrir miklar fjárfestingar í gagngerri endurnýjun og vexti. Erfiðleikarnir hertu okkur og styrktu. Við erum vel í stakk búin til að sinna því hlutverki félagsins að hámarka á ábyrgan hátt verðmæti úr náttúruauðlindum sem Brim nýtir og að tryggja viðskiptavinum um allan heim stöðugt framboð af heilnæmu sjávarfangi sem unnið er úr sjálfbærum fiskistofnum við Ísland.

Hlutur Íslendinga á heimsmarkaði fer minnkandi

Íslensk fyrirtæki í sjávarútvegi sækja á alþjóðamarkaði þar sem samkeppni er vaxandi og hörð. Aðstæður breytast hratt. Á aldarfjórðungi hefur framboð í heiminum af eldisfiski fimmfaldast og er nú meira en af villtum afurðum. Á sama tíma hafa stærstu alþjóðlegu fyrirtækin í fiskeldi og sjávarútvegi stækkað gríðarlega og er æ stærri hluti veltu í höndum stórra alþjóðlegra fyrirtækja. Hvert þeirra 13 stærstu velta meira en öll íslensk sjávarútvegsfyrirtæki til samans og þau allra stærstu nærri fimmfalt á við íslenskan útveg. Hlutur Íslendinga hefur minnkað að sama skapi hin síðari ár en hlutdeild okkar í verðmætum talið er nú innan við 1,4% af heimsmarkaði. Samkeppni íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja við alþjóðleg stórfyrirtæki um aðgang að verðmætum mörkuðum er gríðarlega hörð og kostnaðarsöm en árangur þar skiptir öllu máli fyrir vöxt og viðgang greinarinnar hér á landi. Margvíslegt samstarf innlendra aðila á sviði veiða, vinnslu, dreifingu og sölu er nauðsynlegt við síbreytilegar aðstæður enda eru sameiginlegir hagsmunir fyrirtækjanna og Íslendinga allra gífurlegir því yfir 99% af tekjum greinarinnar koma erlendis frá. Í þessu ljósi hefði mátt ætla að hér á landi væri sameiginlegur skilningur stjórnvalda og sjávarútvegs á eðlilegum og sanngjörnum leikreglum og samstaða um að verja hagmuni okkar allra. En svo er ekki alltaf. Hér er dæmi sem varðar beint hluthafa Brims.

Virk samkeppni í sjávarútvegi á Íslandi

Samkeppniseftirlitið, sem eins og kunnugt er af fréttum, hefur haft afskipti af sameiningum fyrirtækja í sjávarútvegi síðastliðin 15 ár þrátt fyrir að lög um stjórn fiskveiða, sem takmarka hámarkseign hvers fyrirtækis á aflaheimildum, gangi mun lengra en samkeppnislög varðandi sameiningu eða samruna fyrirtækja og takmarki möguleika fyrirtækja í sjávarútvegi til að sameinast umfram fyrirtæki í öðrum greinum á Íslandi. Á árinu 2020 urðu miklar tafir á samþykki Samkeppniseftirlitsins á kaupum Brims á sjávarútvegsfyrirtækjunum Kambi og Grábrók og afleiðing þessara tafa varð tjón fyrir öll félögin og starfsfólk þess. Tafir á þessu samþykki voru ástæðulausar þar sem Samkeppniseftirlitið hafði skýrslu frá Hagfræðistofnun Háskóla Íslands frá árinu 2010 um að það væri ekki óeðlileg samþjöppun í íslenskum sjávarúvegi miðað við hinn alþjóðalega HHI-stuðul sem Samkeppniseftirlitið sjálft bendir á sem helstu aðferð til að meta samþjöppun á markaði. Megintilgangur laga um samkeppni er að stuðla að heilbrigðu samkeppnisumhverfi á Íslandi og tryggja hagsmuni neytenda. Fyrirtæki og stjórnendur þeirra geta orðið brotleg við samkeppnislög með tvennum hætti; í fyrsta lagi ef þau verða uppvís að ólöglegu samráði um þætti sem skerða hagsmuni neytenda og í öðru lagi ef fyrirtækið hefur markaðsráðandi stöðu á samkeppnismarkaði og misnotar þá stöðu. Brim hefur hvorki verið ásakað né grunað um ólöglegt samráð og ekkert hefur komið fram í starfi eða rekstri félagsins sem gefur slíkt til kynna. Þá liggja fyrir niðurstöður athugunar Arev verðbréfafyrirtækis hf. á samþjöppun í sjávarútvegi sem sýna að virk samkeppni er á öllum mörkuðum sem Brim og önnur íslensk sjávarútvegsfyrirtæki starfa á samkvæmt alþjóðlegum og viðurkenndum stöðlum og að samþjöppun í greininni er mjög lítil. Engu að síður sér Samkeppniseftirlitið ástæðu til að tefja eðlilega og sjálfsagða viðleitni fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi til að styrkja sig í erfiðri samkeppni á erlendum mörkuðum með afurðir sínar með tilefnislausum bréfaskriftum, fyrirspurnum og lagalegum vífilengjum án þess nokkru sinni að þurfa að sýna fram á hvaða hagsmuni eftirlitið sé að verja.

Stjórnvöld vinna gegn sameiginlegum hagsmunum

Þar með er ekki öll sagan sögð því þrátt fyrir viðleitni af hálfu stjórnvalda þegar lög um Samkeppniseftirlitið voru samþykkt árið 1993 til að undanskilja framleiðslufyrirtæki í útflutningi frá tilteknum ákvæðum samkeppnislaga og með breytingum á samkeppnislögum sem tóku gildi í upphafi þessa árs kveður nú á ný við íþyngjandi kvaðir í frumvarpi sjávarútvegsráðherra um breytingar á lögum á sviði fiskveiðistjórnunar sem liggur fyrir Alþingi. Þar er að finna ákvæði sem þrengja starfskilyrði íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja umfram það sem annars staðar þekkist. Í fyrsta lagi eru skilgreiningar á „raunverulegum yfirráðum“ fyrirtækja víkkaðar þannig að takmarkanir á samruna fyrirtækja í íslenskum sjávarútvegi eru meiri en fyrirtækja í öðrum atvinnugreinum hér á landi og að auki eru þær meiri en gilda um sjávarútvegsfyrirtæki annars staðar í Evrópu, þ.á.m. um alþjóðlegu stórfyrirtækin sem hvert um sig er stærra en allur íslenskur sjávarútvegur. Ekki er hægt að finna í greinargerð með frumvarpi þessu hvaða hagsmuni þessar breytingar eiga að verja. Rökstuðningur fyrir breytingum er veikburða, samráð stjórnvalda við greinina eða samvinna ekki til staðar og athafnir og fyrirhöfn stjórnvalda tilefnis- og ástæðulítil og valda sjávarútvegsfyrirtækjum tjóni og þegar upp er staðið skaða möguleika íslenskra sjávarútvegsfyrirtækja til að takast á við alþjóða samkeppni og efla þjóðarhag með bættri afkomu.

Staðreyndir fái að tala

Opinber umræða um sjávarútveg sem er undirstaða efnahags- og atvinnulífs hér á landi er nauðsynleg. Mikilvægt er að þar komi ólík sjónarmið fram og að staðreyndir fái að tala sínu máli. Slík umræða leiðir á endanum til aukins skilnings á sameiginlegum hagsmunum atvinnugreinarinnar og almennings í landinu. Auðvelt ætti að vera að sameinast um það markmið að skipulag greinarinnar stuðli fyrst og fremst að sem mestri verðmætasköpun í greininni sem fæst með sölu á afurðum á verðmætum mörkuðum og nýsköpun tækifæra í stoð- og þjónustugreinum. Það vekur því undrun að stjórnvöld, ýmist stofnanir eða ráðamenn, leggi ítrekað grjót í götu og torveldi íslenskum sjávarútvegsfyrirtækjum að ná því markmiði. Það er sannfæring mín að með opinni umræðu, gagnsæi, úrvinnslu gagna og miðlun staðreynda muni okkur takast að skapa aðstæður hér á landi sem gera íslenskan sjávarútveg framúrskarandi og auki hlutdeild okkar á erlendum mörkuðum og efli þannig íslenskt atvinnu- og þjóðlíf.

Í hnotskurn

Brim er stærsta sjávarútvegsfyrirtæki á Íslandi með aflaheimildir, sem samsvara nálægt 12% í þorskígildum talið. Brim er með starfsstöðvar í Reykjavík, Akranesi, Vopnafirði og Hafnarfirði. Á árinu voru að meðaltali níu fiskiskip í rekstri. Aðalskrifstofur félagsins eru við Norðurgarð í Reykjavík. Þar er framkvæmdastjórn félagsins staðsett ásamt fjármála-, botnfisk-, uppsjávar-, markaðs- og mannauðssviði. Fjöldi stöðugilda Brims auk dótturfélaga voru að meðaltali 769 árið 2020 og spanna þau alla virðiskeðjuna, þ.e. veiðar, vinnslu, sölu og dreifingu á afurðum félagsins. Félagið er skráð á aðalmarkaði kauphallar, NASDAQ OMX Ísland.

Veirufaraldurinn Covid-19 hafði umtalsverð áhrif á rekstur samstæðunnar á árinu. Markvisst var unnið að því að hlúa að öryggi starfsfólks og með samstilltu átaki starfsfólks tókst að koma í veg fyrir röskun á starfseminni. Gripið var til margháttaðra varnaraðgerða gegn smiti og mikil áhersla lögð á aukið hreinlæti, aðskilnað starfsfólks, takmörkun á aðgengi að starfsstöðum og annað sem tengist sóttvarnaraðgerðum. Breytingar hafa orðið á mörkuðum víða um heim, með breyttu neyslumynstri matvara og margvíslegum efnahagslegum áhrifum. Til að mynda hafa veitingahús og mötuneyti á lykilmörkuðum samstæðunnar ýmist verið lokuð eða með skerta starfsemi og söluleiðir því aðrar en áður. Aukin sala hefur hins vegar verið á sjávarafurðum á öðrum mörkuðum s.s. í smásöluverslunum. Flutningsleiðir, ekki síst í lofti, en einnig á sjó, hafa raskast og kostnaður aukist og einnig hefur framleiðslusamsetning breyst vegna framangreindra þátta.

Brim heldur áfram að leggja áherslu á umhverfismál og samfélagstengd verkefni og voru ýmis verkefni unnin á árinu. Helstu verkefni ársins 2020, sem tengdust umhverfis-og samfélagsmálum eru talin upp hér en þeim eru svo gerð ítarlegri skil í umfjöllun um starfsemi Brims.

  • Endurnýjun botnfiskvinnslunnar í Norðurgarði. Auk bættrar nýtingar og afkasta er dregið úr orku-og vatnsnotkun og notkun sápu til þrifa. Jafnframt var aðstaða starfsfólks bætt verulega og erfiðum störfum í vinnslunni fækkað. Minni umferð lyftara um vinnusvæðið dregur úr slysahættu starfsfólks.
  • Þriðja togvindan var sett í Akurey og Viðey, þannig að skipin geta dregið tvö troll. Með því eykst veiðigetan og olíunotkun minnkar á hvert kíló veidds afla.
  • Áfram var mikil vinna lögð í þróun á umhverfisbókhaldi Brims til að ná utan um kolefnisfótspor félagsins og fá upplýsingar í rauntíma um umhverfisþætti í rekstri félagsins.
  • Skerpt var á upplýsingagjöf vegna félagslegrar og stjórnunarlegra þátta í rekstri félagsins.
  • Brim undirritaði samning um Þjóðþrif í samstarfi við Pure North Recycling. Með samningnum skuldbindur Brim sig til þess að endurvinna allt plast hér á landi í stað urðunar eða endurvinnslu erlendis.
  • Samfélagsstefna Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi undirrituð.

Breytingar urðu á samstæðunni á árinu 2020.

  • Í mars 2020 keypti Brim þriðjungshlut í Iceland Pelagic. Félagið er sölufyrirtæki sem selur frosnar uppsjávarafurðir á erlenda markaði, aðallega til Austur-Evrópu og Afríku.
  • Í október 2019 gerði félagið samninga um kaup á öllu hlutafé í sjávarútvegsfyrirtækjunum, Fiskvinnslunni Kambi ehf. ásamt dótturfélaginu Grunni ehf. og Grábrók ehf. Eftir samþykkt Samkeppniseftirlitsins eru félögin hluti af samstæðureikningsskilum frá 30. apríl 2020.
  • Í júlí var kynnt samkomulag Akranesskaupstaðar og Brims sem tóku höndum saman og stofnuðu Breið þróunarfélag um uppbyggingu á Breiðinni á Akranesi. Breið er þróunarfélag um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun.
  • Norðanfiskur, sem var dótturfélag Brims, var selt í júlí.
  • Í nóvember 2020 var gengið frá samkomulagi við Þórsberg ehf. um sölu á öllu hlutafé í Grábrók ehf. og söluverðið greitt með 24,1% eignarhlut í Þórsbergi ehf.
  • Í desember 2020 keypti Brim 50% hlut í Guðrúnu Þorkelsdóttur ehf. sem gerir út uppsjávarskipið Guðrúnu Þorkelsdóttur SU.

Lykiltölur

Veitt magn eftir tegund fyrir botnfisktegundir og uppsjávartegundir

Botnfiskafli

Uppsjávarafli

Rekstrartekjur

EBITDA

Hagnaður ársins

Eigið fé