Samfélagið og Nýsköpun

Fjárfestingar í innviðum og þjónustu samfélagsins

Brim er meðvitað um hlutverk sitt þegar kemur að fjárfestingum í innviðum og þjónustu þar sem félagið hefur starfsstöðvar. Fjárfestingar félagsins t.d. á Vopnafirði þar sem byggð hefur verið upp uppsjávarvinnsla með auknum veiðiheimildum, sýnir að félagið telur slíka fjárfestingu vera mikilvægan grundvöll fyrir því að á Vopnafirði haldist traust búsetuskilyrði til frambúðar. Stór hluti af beinum og óbeinum störfum á svæðinu skapast með starfsemi Brims. Því hefur sveitarfélagið notið stuðning Brims við að hlúa að og efla innviðauppbyggingu og þjónustu í nærsamfélaginu s.s. í mennta- og menningarmálum, íþróttalífi, þjónustu og samgöngum svo að fátt eitt sé nefnt.

Stjórnendur úr nærsamfélagi

Brim hefur fjórar skilgreindar starfsstöðvar í Reykjavík, á Akranesi, á Vopnafirði og í Hafnarfirði. Starfsemi félagsins á landsbyggðinni annast að mestu leyti stjórnendur úr viðkomandi sveitarfélagi.

Nýsköpun

Flestar stærri fjárfestingar sem Brim hefur ráðist í undanfarin ár má heimfæra upp á UFS áherslur og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Fjárfest hefur verið í orkuskiptum, skipum, búnaði til að draga úr orkunotkun og stafrænum lausnum. Samhliða hefur verið fjárfest í bættri vinnuaðstöðu til að draga úr veikindum og slysum og auka starfsánægju. Nýsköpun er, og hefur alltaf verið, hluti af starfsemi Brims og félagið hefur beint eða óbeint tekið þátt í eða styrkt nýsköpunarverkefni tengd sjávarútvegi.

Á árinu 2015 setti félagið fram áætlun undir heitinu „Hrein virðiskeðja sjávarútvegs“. Verkefnið felst í þekkingaruppbyggingu á öllum þáttum umhverfisáhrifa frá starfsemi Brims í gegnum alla virðiskeðju félagsins frá veiðum til markaðar. Á þeim gunni er unnið að því að þróa nýja tækni og aðferðir til að halda utan um vistspor afurða Brims frá veiðum til afhendingar á markaði.

Verkefnið „Hrein virðiskeðja sjávarútvegs“ hefur fengið staðfestingu Rannís undanfarin ár sem rannókna- og þróunarverkefni og hefur félagið fengið frádrátt af tekjuskatti vegna verkefnisins.

Ábyrgar veiðar og nýsköpun

Fiskveiðiauðlindin við Ísland er endurnýjanleg svo framarlega sem fiskveiðar eru stundaðar á ábyrgan hátt. Góður árangur íslensks sjávarútvegs í umhverfismálum og nýsköpun stafar því ekki síst af ábyrgri nýtingu á fiskistofnum. Vísindaleg varúðarnálgun við ákvörðun á aflareglu fyrir hverja fisktegund er grundvöllur aflamarks. Fiskistofnar eru í betra ásigkomulagi eftir að núverandi fiskveiðistjórnunarkerfi var tekið upp. Það er einfaldara að skipuleggja veiðar, afli á úthaldsdag hefur aukist verulega og veiðitúrar styst. Ábyrgar veiðar hafa hvatt til nýsköpunar þar sem áhersla er lögð á betri nýtingu á aflanum og leitað lausna um að skapa aukið virði og draga úr kostnaði.

Vinnsla Norðurgarði

Stærsta verkefnið á árinu var endurnýjun botnfiskvinnslunnar í Reykjavík. Undirbúningur hófs fyrir nokkrum árum með breytingum og lagfæringum á húsnæði og nýbyggingum til að gera það mögulegt að taka inn nýjustu vélar og tæki og straumlínulaga vinnsluna. Verkefnið tafðist nokkuð vegna Covid-19 faraldursins en því lauk í byrjun árs 2021.

Tilgangurinn var tvíþættur. Annars vegar var verið að endurnýja tæki og búnað sem var orðinn slitinn og úreltur og laga húsnæði sem komið var til ára sinna. Hins vegar að taka inn nýjustu tæki og hugbúnað sem völ er á með það að markmiði að auka nýtingu, gæði og afköst. Með þessum breytingum verður botnfiskvinnsla Brims í Reykjavík ein sú fullkomnasta í heimi. Ávinningur af verkefninu er einnig umhverfislegur og félagslegur.

Auðveldlega má tengja þessa framkvæmd við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna nr. 9 „Nýsköpun og uppbygging“. Endurnýjun botnfiskvinnslunnar í Norðurgarði var flókin framkvæmd og krefjandi og byggist á mikilli þekkingu og nýsköpun. Það á við um þá aðila sem leggja til tæki, búnað og uppsetningu og ekki síður starfsfólks Brims. Án þeirrar miklu þekkingar og reynslu sem liggur hjá þeim væri svona framkvæmd ekki möguleg.

Umhverfisleg áhrif

  • Lausfrystar og plötufrystar voru endurnýjaðir. Húsinu lokað og einangrað betur og tekið í notkun nýtt loftræstikerfi. Allt þetta dregur úr rafmagns- og heitavatnsnotkun.
  • Fjárfest var í nýju þvottakerfi til að bæta þrif en jafnframt að stýra vatns-og sápunotkun til að draga úr sóun og neikvæðum umhverfisáhrifum.
  • Marel búnaður, skurðarvélar, pökkunarróbótar og annar búnaður frá þeim í vinnslunni er kolefnisjafnaður.

Félagslegir þættir

  • Nánast öll líkamlega erfiðisvinna dettur út.
  • Einhæfum störfum fækkar með straumlínulagðri vinnslu, niðurskurðarvélum, róbotum og annarri sjálfvirkni. Það verður líka eðlisbreyting á störfum sem kallar á að fleira starfsfólk tileinki sér tækniþekkingu.
  • Búningsherbergi og mötuneyti voru endunýjuð sem bætir verulega allan aðbúnað starfsfólks.

Kolefnisfótspor

Við endurbætur á botnfiskvinnslu félagsins í Norðurgarði er eitt að markmiðum félagsins að ná utan um áætlað kolefnisfótspor niður á kg pr. unnin afla í landvinnslu félagsins svo þær upplýsingar verði aðgengilegar kaupendum.

Snjöll umhverfisstjórnun

Brim hefur verið brautryðjandi í því að innleiða snjalla umhverfisstjórnun sem felst m.a. í því að safna sjálfvirkt gögnum um umhverfisþætti félagsins og miðla upplýsingum til hagaðila. Hluti af snjallri umhverfisstjórnun hefur verið rafvæðing á upplýsingaferlum sem lögboðnir eru fyrir skip samkvæmt umhverfislöggjöf, þ.m.t. MARPOL-samningnum. Einnig hefur verið sett upp rafrænt eftirlit fyrir eftirlitsstofnanir þar sem eftirlitsaðilar geta sinnt eftirlitshlutverki sínu á vefnum í stað þess að framkvæma eftirlitsskoðanir á staðnum. Að auki eru komnir snjallgámar (e. smart containers) og snjallvogir (e. smart scales) á sorpflokkunarstöðvar félagsins. Þessi tæki rauntímaskrá endurvinnslu hráefnis og sorps og skila upplýsingum rafrænt inn í umhverfisgagnagrunn félagsins.

Stöðugt er verið að bæta við mælistöðvum og styrkja gagnagrunninn til að gera umhverfisupplýsingar félagssins enn ítarlegri.

Hönnun og þróun á eigin umhverfisgagnagrunni

Á árinu var tekin í notkun umhverfisgagnagrunnur sem þróaður var af starfsfólki Brims. Öllum gögnum sem tengjast umhverfisuppgjöri félagsins er streymt inn á einn og sama staðinn. Samhliða því voru settir upp „umhverfisskjáir", víðsvegar um fyrirtækið til að auka umhverfisvitund starfsfólks.

Önnur verkefni

Þriðja togvindan í Akurey og Viðey

Stór þáttur í að ná framangreindum markmiðum var að bæta þriðju togvindunni í ísfiskskipin Akurey og Viðey. Fyrirkomulagi skipana var breytt með þeim hætti að nú er hægt að stunda veiðar með tveimur trollum. Markmið með þessum breytingum er meðal annars að auka veiðimagn með minni olíunotkun á veitt tonn afla og draga þannig úr kolefnisfótspori við veiðar.

Eldsneytisnotkun skipa í rauntíma

Unnið var við líkan sem reiknar eldsneytisnotkun hjá skipum félagsins. Verkefni snýst um að þróa tækni sem gerir útgerðarstjórum Brims kleift að greina rekstrarþætti skipa betur svo sem hraða þeirra og tengja betur saman veiðar og vinnslu en við það er hægt að draga úr eldsneytisnotkun skipa.

Veiðarfæri

Miklar framfarir hafa orðið í gerð veiðarfæra. Brim hefur í gegnum árin unnið náið með framleiðendum veiðarfæra til að auka afla á sóknareiningu, bæta meðferð fisks sem fer í veiðarfærin og draga úr orkunotkun (olíu) með léttari trollum.

Brim hefur undanfarin ár komið að samstarfsverkefni þar sem ísfiskskip félagsins hafa komið að þróun og prófunum á nýjum tegundum toghlera sem eiga að draga úr eldsneytisnotkun togskipa ásamt því að hlífa hafsbotninum betur. Samstarfsaðili okkar í þessu verkefni er Ný toghlerahönnun ehf. og framleiðir fyrirtækið hlerana undir nafninu Ekkó.

FJARLÆKNINGABÚNAÐUR

Síðustu ár hefur Brim unnið að því í samstarfi við Radíómiðun, Símann og Sjúkrahúsið á Akureyri að koma á fjarlækningabúnaði í skipum félagsins. Slíkt kerfi er komið í bæði uppsjávarskip félagsins, Víking AK og Venus NS. Ef slys verða eða upp koma veikindi um borð er búnaður í sjúkraklefa ræstur og er þá öllu aðgengilegu netsambandi á svæðinu beint í sjúkraklefann. Úr sjúkraklefanum má þá senda lifandi mynd af sjúklingnum ásamt helstu mæligildum lífsmarka til læknis sem þannig getur metið ástand sjúklingsins. Þessi búnaður skiptir sköpum þegar meta á hvort kalla þarf til þyrlu eða ekki auk þess sem hann hjálpar skipstjórnarmönnum að annast sjúklinginn.

Brim hefur enn fremur tekið í notkun stafrænt slysaskráningarkerfi sem er aðgengilegt á innri upplýsingavef félagsins. Tilgangur kerfisins er að auðvelda starfsfólki að skrá slys og tryggja að öryggisstjórn félagsins hafi yfirsýn yfir þau slys sem verða. Enn fremur að þau séu rýnd og viðeigandi ráðstafanir gerðar til að koma í veg fyrir frekari slys.

Áhugavert að vita!
Brim mótaröðin í skák hófst í júní en varð heldur endasleppt vegna Covid-19. Brim var aðalstyrktaraðili mótaraðarinnar sem Skáksambandi Íslands skipulagði mótið. Vegna samkomutakmarkana náðist ekki að keppa nema einu sinni.

Samfélags- og samstarfsverkefni

Brim tekur virkan þátt í að stuðla að uppbyggingu og framþróun í samfélaginu með margþættum stuðningi við góð málefni. Verkefnin eru fjölbreytt og með þeim styður Brim m.a. öflugt slysavarna- og björgunarstarf, menningarstarf og nýsköpun og fræðslu tengda sjávarútvegi.

Brim styður við valin verkefni sem efla samfélagið, vernda umhverfið og auka nýsköpun. Styrkirnir renna til félagasamtaka og fyrirtækja sem stuðla að jákvæðri samfélagsþróun. Styrktarbeiðnir berast félaginu á heimasíðu félagsins þar sem styrkjanefnd tekur beiðnir til umfjöllunar.

  • Umhverfismál
  • Öryggi og slysavarnir
  • Samfélagsmál
  • Menning og listir
  • Efling atvinnulífs
  • Fræðsla og nýsköpun
  • Íþróttir, æskulýðsstarf og forvarnir

Umhverfisverkefni

Yfirlýsing um markmið í loftslagsmálum

Brim undirritaði ásamt 103 öðrum íslenskum fyrirtækjum og stofnunum yfirlýsingu um markmið í loftslagsmálum þann 16. nóvember 2015 í Höfða. Yfirlýsingin var afhent í tengslum við loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna sem fram fór í París í desember 2015. Reykjavíkurborg og Festa, miðstöð um samfélagsábyrgð fyrirtækja, hafa haldið utan um yfirlýsingu fyrirtækjanna. Markmið „Loftslagsverkefnisins“ eru að:

  • draga úr losun gróðurhúsalofttegunda,
  • minnka myndun úrgangs,
  • mæla árangurinn og gefa reglulega út upplýsingar um stöðu ofangreindra þátta.

Arctic Circle

Brim er einn af styrktaraðilum Norðurslóðaráðstefnunnar Arctic Circle. Arctic Circle er opinn lýðræðislegur vettvangur með þátttöku ríkisstjórna, stofnana, fyrirtækja, háskóla, umhverfissamtaka og annarra sem áhuga hafa á þróun norðurslóða og afleiðingum hennar fyrir framtíð heimsins. Sem slíkur er Arctic Circle stærsti vettvangur sinnar tegundar í heiminum. Formaður Arctic Circle er Ólafur Ragnar Grímsson, fyrrverandi forseti Íslands.

Brim gengur til liðs við Bláa herinn

Brim hf. hefur gerst aðalstyrktaraðili umhverfissamtakanna Bláa hersins. Blái herinn hefur starfað í 25 ár og leggur áherslu á baráttuna við plastmengun í hafinu með hreinsunarstörfum við strendur landsins og með hvatningu og vitundarvakningu. Brim mun styðja rekstur samtakanna með fjárframlögum og með faglegri aðkomu að kynningu og markaðsstarfi í þeim tilgangi að auka sýnileika umhverfissamtakanna. Þá mun Brim taka beinan þátt í verkefnum Bláa hersins með eigin hreinsunardegi a.m.k. einu sinni á ári þar sem fjörur verða gengnar og hreinsaðar.

Kristján Davíðsson stjórnarformaður Brims og Tómas J. Knútsson, stofnandi Bláa hersins, undirrituðu styrktar- og samstarfssamning.

Þjóðþrif

Brim undirritaði samning um Þjóðþrif við Pure North Recycling á árinu 2020. Með samningnum skuldbindur Brim sig til þess að endurvinna allt plast hér á landi í stað urðunar eða endurvinnslu erlendis.

Þegar er farið að flokka allan einnota fatnað í vinnslu Brim og senda í endurvinnslu en áður var þessu öllu fargað þar sem enginn farvegur var til fyrir óhreint plast.

Öryggi og slysavarnir

Slysavarnafélagið Landsbjörg

Brim er stuðningsaðili björgunarsveita á Íslandi. Slysavarnafélagið Landsbjörg nefnast landssamtök björgunarsveita og slysavarnadeilda á Íslandi og ein stærstu sjálfboðaliðasamtök á Íslandi. Markmið starfseminnar er að koma í veg fyrir slys og bjarga mannslífum og verðmætum. Brim vill styðja við bakið á öflugu slysavarna- og björgunarstarfi bæði til sjós og lands enda treysta sjómenn okkar á björgunarsveitir ef eitthvað bjátar á. Brim styrkir björgunarsveitirnar Ársæl, Björgunarsveitina Vopna og Björgunarfélag Akraness.

Öryggishópur sjávarútvegsins

Öryggishópur sjávarútvegsins starfar innan Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, SFS, og hefur það markmið að fækka slysum í greininni. Hópurinn tók formlega til starfa í apríl 2016 og á Brim fulltrúa í þeim hópi. Fulltrúarnir koma frá stærstu sjávarútvegsfyrirtækjum landsins og eiga það sammerkt að vinna að öryggismálum. Fyrsta verkefni hópsins var að skrifa Öryggishandbók fyrir fiskvinnslur sem nú er aðgengileg á vef SFS og Rannsóknarsjóðs síldarútvegsins sem styrkti verkefnið. Öryggishandbókin er uppflettirit fyrir stjórnendur í sjávarútvegi og er ætlað að tryggja öflugt vinnuverndarstarf innan fyrirtækjanna.

Meðfylgjandi mynd var tekin haustið 2019 í heimsókn öryggishópsins hjá SVN.

.

SAMFÉLAGSVERKEFNI

Heimsþing kvenleiðtoga

Brim er einn af bakhjörlum Heimsþings kvenleiðtoga. Heimsþingið var haldið í þriðja sinn í samstarfi Alþingis, ríkisstjórnar Íslands og samtakanna Women Political Leaders, WPL, dagana 9.–11. nóvember. Að þessu sinni var heimsþingið að fullu rafrænt vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Fjöldi þingmanna tók þátt í þinginu að þessu sinni, víða að úr heiminum, ásamt núverandi og fyrrverandi þjóðarleiðtogum.

Hátíð hafsins

Brim tók höndum saman með Faxaflóahöfnum og Sjómannadagsráði og stóð með þeim að framkvæmd Hátíðar hafsins árið 2019. Þessir þrír aðilar eru meginstoðir hátíðarinnar.

Hátíðin samanstendur af hafnardeginum og sjómannadeginum og er haldin í þeim tilgangi að gefa fjölskyldufólki tilefni til að koma á hafnarsvæðið í Reykjavík og kynnast hafnarstarfsemi, útgerð og störfum sjómanna. Tónlist, skemmtun og veitingastaðir á svæðinu gleðja gesti og gangandi með ýmsu góðgæti. Gamla höfnin iðar af lífi þessa helgi.

Síðasta vor varð að aflýsa hátíðinni vegna samkomutakmarkanna, sem settar voru á vegna Covid-19 faraldursins. Stefnt er að því að halda Hátíð hafsins í vor ef það verður búið að slaka á samkomutakmörkunum.

Góðgerðarmál

Brim styður starfsemi í sinni heimabyggð, sem er Reykjavík, Akranes og Vopnafjörður. Styrkirnir flokkast undir ýmis málefni, en öll tengjast þau samfélagi byggðarinnar á einhvern hátt. Brim hefur stutt ýmis félagasamtök, svo sem Mæðrastyrksnefndir bæði í Reykjavík og á Akranesi, Sjálfsbjörg, Hjálparstarf kirkjunnar og Samhjálp, svo að nokkur séu nefnd.

Heimsóknir og kynningar

Kynning á starfsemi Brims

Undanfarin ár hefur verið mikill áhugi í samfélaginu á starfsemi Brims, ekki síst hvað snertir umhverfismál þess. Tekið hefur verið á móti fulltrúum allmargra fyrirtækja sem óskuðu eftir því að kynnast hvernig staðið væri að flokkun úrgangs hjá fyrirtækinu. Þá hefur verið mikil ásókn frá skólum, erlendum gestum og öðrum aðilum að fá að koma í heimsókn og kynnast starfsemi fyrirtækisins. Hins vegar var nánast alveg lokað á heimsóknir til Brims á árinu vegna Covid-19 en í þess stað var boðið upp á fjarkynningar fyrir fyrirtæki og skóla sem mæltust vel fyrir.

Myndin er frá tengslafundi Festu, sem haldin var í Marshall húsinu 2019.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins í Reykjavík

Í júlímánuði síðasta sumar þegar slakað var á samkomutakmörkunum vegna Covid-19 í stuttan tíma þá hafði Sjávarútvegsskóli unga fólksins í Reykjavík aðstöðu í Norðurgarði. Alls sóttu 75 nemendur skólann í Reykjavík í ár.

Nemendur skólans fá í eina viku að kynnast flestum þáttum sjávarútvegs og menntunar- og atvinnumöguleikum tengdum sjávarútvegi.

Þetta er í fyrsta sinn sem Sjávarútvegsskóli unga fólksins er starfræktur í Reykjavík en skólinn er samstarfsverkfni Háskólans á Akureyri, fyrirtækja í sjávarútvegi og vinnuskóla í þeim sveitarfélögum þar sem skólinn er starfræktur.

Sjávarútvegsskóli unga fólksins var stofnaður árið 2013 af Síldarvinnslunni á Neskaupsstað en Sjávarútvegssmiðstöð Háskólans á Akureyri tók við rekstrinum árið 2017 og síðan þá hefur skólinn verið rekinn í samstarfi við vinnuskóla byggðarlaga og sjávarútvegsfyrirtækja á Austurlandi og á Norðurlandi. Reiknað er með að nemendur skólans árið 2020 hafi verið um 300 ungmenni.

Áhugavert að vita!
Vitinn, hugmyndasamkeppni Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi og Háskólans í Reykjavík fór fram í byrjun ársins. Að þessu sinni lagði Brim til raunverkefni sem nemendur unnu með. Verkefnið snéri að markaðssetningu á vörum félagsins á Bandaríkjamarkaði. Átta lið tóku þátt sem var metþáttaka en samkeppnin var fyrst haldin árið 2015.

Menning og listir

Marshallhúsið

Brim er eigandi Marshallhússins sem staðsett er á athafnasvæði félagsins í Reykjavík. Marshallhúsið er nýr vettvangur lista við gömlu höfnina í Reykjavík. Húsið var byggt árið 1948 sem síldarbræðsla en hýsir nú Nýlistasafnið, Kling & Bang, Stúdíó Ólafs Elíassonar ásamt vinnustofu og veitingastaðnum La Primavera Ristorante. Hugmyndina að nýju og breyttu hlutverki Marshallhússins má rekja til arkitektanna sem starfa hjá arkitektastofunni Kurtogpi, þeirra Ásmundar Hrafns Sturlusonar og Steinþórs Kára Kárasonar, en stofan sá um alla arkitektavinnu vegna breytinganna. Verkefnið hófst formlega þann 19. febrúar 2016 þegar skrifað var undir samninga og hafist var handa við framkvæmdir. Marshallhúsið, glæsileg listamiðstöð, var formlega opnuð 18. mars 2017.

Þúfa

Árið 2013 efndi Brim, ásamt Sambandi íslenskra listamanna og Faxaflóahöfnum, til samkeppni um nýtt listaverk sem prýða átti umhverfið við Ísbjörninn, nýja frystigeymslu félagsins sem byggð var sama ár. Fyrir valinu varð verkið Þúfa eftir listakonuna Ólöfu Nordal. Þeir sem ganga upp á toppinn njóta eins tilkomumesta útsýnis yfir Reykjavík sem völ er á. Þúfa var vígð við hátíðlega athöfn þann 21. desember 2013 og varð strax að vel þekktu kennileiti í Reykjavík og vinsæll áfangastaður jafnt ferðamanna sem borgarbúa.

Efling atvinnulífs

Breiðin á Akranesi

Akraneskaupstaður og Brim hafa tekið höndum saman og stofnað sameiginlegt þróunarfélag. Undirbúningur stóð frá haustdögum 2019, þar sem KPMG ráðgjöf leiddi vinnuna með þátttöku íbúa og ýmissa hagaðila. Niðurstaðan er stofnun þróunarfélags um atvinnuuppbyggingu og nýsköpun á Breið á Akranesi.

Gert er ráð fyrir áfangaskiptri uppbyggingu til langs tíma þar sem lagt verður upp með uppbyggingu í ferðaþjónustu, heilsu og hátækni. Félaginu er ætlað að efla atvinnutækifæri, nýsköpun og skapandi greinar á svæðinu og þá er gert ráð fyrir nýrri íbúabyggð á Breið.

Brim og Akraneskaupstaður eiga meirihluta lóða og fasteigna á Breið þar sem liggja einstök tækifæri til uppbyggingar.
Markmið aðila er að skapa umhverfi þar sem miðlun ólíkrar þekkingar á sviði tækni, lýðheilsu og umhverfismála muni stuðla að rannsóknum og nýsköpun í fremstu röð sem muni leysa úr ólíkum áskorunum og vandamálum sem að heiminum steðja.




Stjórnmálaflokkar

Brim styrkti á árinu þá stjórnmálaflokka sem eiga fólk á þingi og sóttu um styrk.

Sjávarútvegsráðstefnan

Brim hefur undanfarin ár verið einn af aðalstyrktaraðilum Sjávarútvegsráðstefnunnar. Markmið hennar er að ná saman á einum stað þversniði af greininni til að vinna megi að framförum og sókn. Sjávarútvegsráðstefnan er vettvangur þar sem fólk hittist og styrkir sambönd og samstarf í greininni. Á ráðstefnunni er fjallað um mikilvæg viðfangsefni á sviði sjávarútvegs og standa vonir til þess að hún reynist ráðstefnugestum uppspretta hugmynda og hvatning til góðra verka.

Íþróttir, æskulýðsstarf og forvarnir

Brim styrkir íþrótta- og æskulýðsstarf í þágu barna og ungmenna á Akranesi og Vopnafirði. Þannig styður félagið við almenna lýðheilsu, bæði líkamlega og andlega.

Stuðningur við fyrirlestra Þorgríms Þráinssonar í grunnskólum landsins

Brim styður Þorgrím Þráinsson, rithöfund, til að flytja fyrirlestur sinn „Verum ástfanginn af lífinu“ í öllum grunnskólum landsins.

Þorgrímur fjallaði sjálfur um stuðninginn á Facebook síðu sinni: „Öll erum við mismunandi, til allrar hamingju! Sumir hafa meiri skilning á samfélagsábyrgð en aðrir og þannig verður það alltaf. Ástæða þess að ég hef getað heimsótt alla grunnskóla á landinu á hverju einasta ári - í áratug, og flutt fyrirlesturinn Verum ástfangin af lífinu fyrir nemendur í 10. bekk, er sú að forstjórar/yfirmenn ákveðinna fyrirtækja sýna samfélagsábyrgð og treysta mér. Þeir hafa veitt mér styrk til að geta boðið nemendum upp á fyrirlesturinn – skólum að kostnaðarlausu.“

Brim er annar tveggja stuðningsaðila Þorgríms.

Brim skákmótaröðin

Brim mótaröðin í skák hófst helgina 19.-21. júní, í félagsheimili Taflfélags Reykjavíkur. Brim er aðalstyrktaraðili mótaraðarinnar ásamt Skáksambandi Íslands.

Taflfélag Reykjavíkur stendur fyrir mótinu í samstarfi við Skákfélag Siglufjarðar, Skákfélag Selfoss og nágrennis og Skákfélaginu Huginn.
Fyrirkomulagið er þannig að haldin verða sex helgarskákmót yfir árið, þrjú í TR, eitt á Siglufirði, eitt á Selfossi og eitt á Húsavík. Á föstudegi eru tefldar fjórar atskákir, á laugardegi tvær kappskákir og á sunnudegi ein kappskák. 

Keppt var um glæsileg verðlaun; 350.000 króna verðlaunasjóður fyrir bestan samanlagðan árangur í mótaröðinni. Það verður stigakeppni þar sem fjögur bestu mót hvers skákmanns gilda.



Rynkeby hjólreiðakeppnin

Brim er eitt af þeim fyrirtækjum, sem eru gullstyrktaraðilar Rynkeby hjólreiðarkeppninnar. Brim var gullstyrktaraðili annað sinn í ár.

Gullstyrktaraðilar verkefnisins reiða af hendi að lágmarki 400.000 kr sem fara óskiptar í söfnun liðsins fyrir Styrktarfélag krabbameinssjúkra barna. Team Rynkeby er samevrópskt góðgerðarstarf, sem hjólar á hverju ári um 1300 km á 8 dögum frá Danmörku til Parísar og safna þannig peningum til styrktar krabbameinssjúkum börnum. Vegna Covid faraldursins og feraðtakmarkana var ekki farið til Danmörku heldur hjóluð sama vegalengd hérna heim.